Forritunarmálið enska
Það er ekki svo ýkja langt síðan að forritun var mál málanna. Ég man ágætlega eftir því þegar hinir og þessir stigu fram og fullyrtu að forritun væri eða verði í náinni framtíð nánast jafn mikilvæg hæfni og lestur og skrift (líka hér). Og ég ætla ekki að gera lítið úr því, alls ekki. Þessar hugmyndir náðu samt aldrei almennilegu flugi í skólakerfinu þrátt fyrir mjög áhugaverðar tilraunir. Ég velti því fyrir mér hvort tími sé kominn til að endurskoða þær, svona með tilkomu gervigreindar.
Kjarnin í þessum vangaveltum um mikilvægi forritunarnáms felst í þeirri hugmynd, að nám í forritun geti verið gagnleg ekki bara til þess að læra að forrita heldur vegna alls þess sem lærist í leiðinni. Kannski fyrst og fremst þess vegna? Og það er til mikils að vinna. Forritun krefst skipulagningar, aga, rökhugsunar og hún kennir þolinmæði og þrautseigju. Forritun krefst vandlegrar athygli, gagnrýnnar hugsunar og stöðugra endurbóta. En forritun örvar á sama tíma sköpunargáfuna og hvetur til nýstárlegra lausna á oft flóknum viðfangsefnum. Að auki hvetur kóðun nemendur til að nálgast flókin verkefni með því að skipta þeim niður í smærri, viðráðanlegri einingar og eflir þannig nauðsynlega skipulags- og verkstjórnarhæfileika.
Allt eru þetta mjög eftirsóknarverðir eiginleikar.
Vandinn við að kenna forritun er hins vegar sá, að hún höfðar alls ekki til allra, sama hvaða búningi hún er klædd. En hvað núna þegar gervigreind hefur umbreytt forritun fyrir fagfólk. Getur verið að núna sé tækifæri til að endurskoða þessar hugmyndir fyrir okkur hin?
Ég kynni til sögunnar Vibe forritun (e. Vibe programming)
Vibe forritun felur í sér að fólk sem veit jafnvel ekki hvernig á að kóða geti hagnýtt gervigreind og búið til stafrænar vörur eins og t.d. app eða vef. Svona kemst Andrej Karpathy, einn af stofnendum OpenAi, að orði um fyrirbærið.
There's a new kind of coding I call "vibe coding", where you fully give in to the vibes, embrace exponentials, and forget that the code even exists. It's possible because the LLMs (e.g. Cursor Composer w Sonnet) are getting too good. Also I just talk to Composer with SuperWhisper so I barely even touch the keyboard. I ask for the dumbest things like "decrease the padding on the sidebar by half" because I'm too lazy to find it. I "Accept All" always, I don't read the diffs anymore. When I get error messages I just copy paste them in with no comment, usually that fixes it.
Vibe forritun er s.s. óformleg nálgunar við kóðun þar sem forritarar setja sköpun og innsæi í forgang frekar en að fylgja stranglega formfastri skipulagningu eða stífri aðferðafræði. Vibe forritun er skemmtileg og byggir á innblæstri og ánægju, tilfinningu. Vibe forritun er líka oft beintengd við gervigreind (þarf samt ekki að vera) sem í dag gerir okkur kleift að forrita með ensku að forritunarmáli. Ég held að í skólastofunni þá sé það einmitt lykilatriðið, þ.e. að geta talað sig í gegnum verkefnið og fengið endurgjöf nánast samstundis. Ég er allavega þeirrar skoðunar að þetta gæti verið ómaksins virði og er um þessar mundir að þróa valáfanga til kennslu á starfsbraut FB þar sem ég samþætti ensku, gervigreind og tölvuleiki. Þetta verður gaman.
Að lokum óska ég eftir góðri, íslenskri þýðingu á þessu fyrirbæri.